ARKIV.IS


ARKIV.IS er gagnagrunnur með alhliða upplýsingum um íslenska myndlist og myndlistarmenn í nútíð sem fortíð. Grunnurinn er m.a. byggður á Upplýsingavef um myndlist og myndhöfunda á Íslandi (UMM.IS) sem var samstarfsverkefni menntamálaráðuneytisins, SÍM og Myndstefs.

ARKIV.IS er eitt af verkefnum SÍM sem miðar að því að tryggja gott aðgengi að upplýsingum um íslenska myndlist og auka þannig almenna þekkingu á henni og glæða á henni áhuga. Þar mun listasaga Íslands verða varðveitt um ókomna tíð og efni hans verður aðgengilegt öllum almenningi.

Leit í ARKIV.IS er nærtækasta leiðin til að nálgast upplýsingar um íslenska myndlist, hver sem tilgangur notendans væri. Gagnagrunnurinn nýtist til að mynda þeim sem vilja rannsaka íslenska listasögu, ýmsum úthlutunarnefndum, sýningarstjórum og hugsanlegum kaupendum myndlistar. Einnig getur hann nýst við gerð ýmis konar kennsluefnis. Upplýsingar á vefnum eru bæði á íslensku og ensku þannig að hann þjónar einnig kynningarhlutverki utan landsteinanna.

Leitarmöguleikar

ARKIV.IS samtvinnar þrjá gagnagrunna með fjölbreyttum leitarmöguleikum eftir því hverjar þarfir notandans eru:

  • Í listamannatali má finna kynningarefni um listamenn
  • Myndverkabanki er safn verka íslenskra listamanna
  • Í þriðja lagi geta listamenn og aðrir fundið hagnýtar upplýsingar um ýmislegt sem tengist starfi myndlistarmannsins

Gildi og hlutverk

Eitt af markmiðum ARKIV.IS er varanleg varðveisla alhliða upplýsinga um verk og sögu íslenskra listamanna. Þetta menningarvörsluhlutverk felur m.a. í sér að ómetanlegar heimildir um íslenska myndlist munu varðveitast fyrir komandi kynslóðir. Vefurinn er og verður sameign þjóðarinnar en menningarsagan er mikilvægur hluti sjálfsmyndar þjóðar. Gott aðgengi að henni stuðlar að auknu menningarlæsi einstaklingsins sem hlýtur að vera markmið og skylda yfirvalda og samtaka á borð við SÍM. Opinn aðgangur gerir almenningi, hvar á landinu eða í heiminum sem fólk er niðurkomið, kleift að kynna sér íslenska myndlist með einföldum hætti og njóta.

Til listamanna

Annað markmið ARKIV.IS er að þjóna hlutverki allsherjar upplýsingagrunns um og fyrir starfandi myndlistarmenn. Þátttaka starfandi listamanna í verkefninu er undirstaða þess að vefurinn standi undir nafni sem varanleg varðveisluleið listasögunnar en listamaðurinn sjálfur ber ábyrgð á upplýsingum á sínu svæði og uppfærslu á þeim. Allir félagsmenn SÍM eiga sjálfkrafa kost á því að vera með í gagnagrunninum.

Öll gögn ARKIV.IS eru hýst hjá öruggum hýsingaraðila en SÍM hyggst uppfylla þær kröfur sem settar eru fram í persónuverndarreglugerð ESB, svokallaðar GDPR-reglur. Starfsemi myndverkabanka mun svo vitaskuld vera í samræmi við reglur höfundalaga.

Það að fá sinn sess í íslenskri listasögu er þó alls ekki það eina sem listamenn tryggja sér með þátttöku. Á ARKIV.IS er að finna ógrynni hagnýtra upplýsinga fyrir listamenn um flest það sem gæti nýst þeim í námi og starfi. Upplýsingar í gagnagrunninum eru tengdar saman með krækjum sem býður upp á ótal leitarmöguleika. Ef notandinn hefur til að mynda áhuga á tiltekinni gestavinnustofu myndi leit að henni vísa til ferilskrár þeirra listamanna í grunninum sem þar hafa dvalið. Með þeim hætti er hægt að fá upplýsingar um skóla og námsleiðir, styrki, söfn og sýningarsali eftir ýmsum leitarskilyrðum, t.d. löndum eða borgum. ARKIV.IS gegnir einnig hlutverki einhvers konar vinnumiðlunar. Kynningarefni og ferilskrá listamanna, sem og verk þeirra í myndverkabanka, auðvelda sýningastjórum, listaverkakaupendum og auðvitað öllum sem vilja finna listamenn með menntun og reynslu sem myndu nýtast í hverju því verki sem atvinnurekandi hefði í huga. Ekki síst mun vefurinn auðvelda úthlutunarnefndum styrkja og verðlauna að taka sínar ákvarðanir um val á listamönnum. Eitt af langtímamarkmiðum SÍM er að tengjast alþjóðlegum gagnabönkum sem myndi auka möguleika íslenskra listamanna á að koma sér á framfæri erlendis.