Sigurður Árni Sigurðsson
1997-2000
Sólalda samanstendur af sautján stálplötum sem standa út úr vegg með jöfnu millibili og mynda ölduform eða orkubylgju. Plöturnar hallast misjafnlega fram og niður, úr láréttri stöðu í um 45° halla. Staðsetning platna miðast við að fá skugga þeirra, úr hæstu sólarstöðu til að vísa lóðrétt niður og mynda beina línu eftir endilöngum veggnum, mislangt niður eftir árstíma. Fremst á hverri plötu eru misstór göt sem varpa ljóspunkti í skugga hverrar plötu við hádegissól. Þegar sól er hæst á lofti við lengstan sólargang ár hvert, myndast fullkominn hringur eða ljóspunktur í skugga hverrar plötu. Listaverkið áréttar tengsl orkuversins við gang jarðar um sólu, þá eilífðarvél náttúrunnar sem knýr hringrás vatnsins sem stöðin byggir framleiðslu sína á.