Um listamanninn
NOKKUR ORÐ UM LIST OG TILGANG HENNAR
Í fyrsta lagi á list að stuðla að því að opna augu fólks fyrir "sannleikanum"eða með öðrum orðum að sýna okkur hvernig lífið er. Þetta eflir menninguna og vitund manna. Með komu Dadaismans fóri listamenn að sýna í meira mæli neikvæðar hliðar mannkynsins.
Þetta var tímabært og þarft verk til þess að lofta út en því miður festumst við í þessu fari og nú er svo komið að ljótleiki, grófleiki, afbrigðileiki og illska eru talin vera undirstaða sannleikans en góðvild, fínleiki og ég tala ekki um eitthvað mjúkt og fallegt sé veruleikaflótti og veikleiki. Nú er orðið svo auðvelt að fallast á það að allir séu vondir og að ekkert sé hægt að gera vegna þess að illskan (dýrið í okkur) sé allsráðandi í heiminum.
Er þetta ekki að gefast upp og að vera að velta sér upp úr sama drullupollinum án þess að reyna að skríða upp úr honum og þvo sér í lindinni? Hvernig væri að sýna allan þennan góðleika sem er til staðar í heiminum? Er það ekki líka sannleikur og það sannleikur sem við þurfum nauðsynlega að láta minna okkur á. Þorir einhver að sýna hann? Ég mana listamenn til að stíga fyrsta sporið og láta ekki hégóma og hræðslu standa í vegi fyrir uppbyggjandi list. Að styrkja siðferðisþrek mannkynsins hlýtur að leiða til betri heims eða í versta falli til vonar um betri heim.
Tilgangur listar er ekki að selja eða vera frægur (koma sér á framfæri) heldur læra að SJÁ, læra um tilgang lífsins. Ég er ekkert á móti því að fólk verði frægt og ríkt af list sinni svo lengi sem það er trútt sjálfu sér í listinni. En mér leiðist það tal að til að vera listamaður þurfi maður að koma sér á framfæri. Það er kannski æskilegra að maður gerði það en minni listamaður er maður ekki þótt færni til að markaðssetja sig sé ekki fyrir hendi. Margir af núverandi viðurkenndum listamönnum sögunnar voru óþekktir á sínum tíma (og kannski misskildir?) en aðrir sem voru viðurkenndir og frægir eru aftur á móti flestir gleymdir eða einskis metnir núna.
Hverjir mundu til dæmis halda því fram að Van Gogh hafi ekki verið listamaður? Mistókst honum ekki að markaðssetja sig? Lifði hann á list sinni? Í öðru lagi ætti list að stuðla að samkennd og reyna að leiða okkur upp úr þessu kviksyndi lægri hvata sem við höfum komið okkur í. Ef við erum það sem við hugsum eins og oft hefur verið sagt getum við þá ekki notfært okkur það og lyft okkur upp í æðra veldi? Að vera ekki fastur á neðstu grein helsur færa okkur ofar í tréinu og þaðan frá tréi til trjáa og loks frá skógi til skóga? Í þriðja lagi má nefna að verknaðurinn listtjáning og lestur listamannsins á þessari tjáningu (sama hvað "fær" eða "lélegur" listamaður hann er svo lengi sem hann reynir að vera einlægur) er góð sjálfskönnun. Reyndar má segja að þessi sjálfskönnun nái líka yfir þjóðfélagið sem hann býr í.
Þessi ómeðvitaða eða meðvitaða rannsókn hans á sjálfum sér og umhverfinu mun gera hann að heilsteyptari einstaklingi sem mun hafa áhrif á hans nánasta umhverfi. Eins og ég segi að ef þetta er gert af einlægni og áhuga mun þetta verða eins og snjóbolti sem hleður utan á sig. Sagt er að stjórnmálamenn eigi að vera fyrirmynd dyggða fyrir þegna sína, læknar ættu að vera hreystin uppmáluð og lifa heilsusamlegu líferni og yrðu þannig til fyrirmyndar og það sama má segja um prestastéttina o.s.fr..
En hvað með listamennina? Í bókinni "The Chinese Eyes" segir höfundurinn, listamaðurinn Ching Yee, að kínverskir listamenn séu ekki einungis málarar málverka heldur sé ætlast til þess að þeir séu góðir og agaðir persónuleikar, hugsandi, hugmyndaríkir og næmir. Nýlega heyrði ég þá athugasemd að listamenn yrðu að bera ábyrgð og yrðu þess vegna að SEGJA með orðum hvað þeir væru að fara með list sinni. Ég fellst á að listamenn verði að bera ábyrgð á því sem þeir eru að gera en sú ábyrgð fellst ekki í orðum heldur hvað þeir eru að SEGJA með listaverki sínu.
Ef fólk skildi ekki verkin eða næðu engu sambandi við þau væru þá ekki orðin innantóm og stæðu fyrir utan verkin? Það má líka segja að þá væri hið ritaða eða talaða mál orðið listaverkið sjálft sem ætti þá að geta staðið eitt og sér. Sum verk er hægt að LESA á mismunandi vegu eftir því hverju "lesandinn" leitar eftir í það og það skiptið. Væri það þá ekki að firra lesandann gleðinni yfir að uppgötva hina mismunandi merkingu verksins - að vera með miklar útskýringar? Ég ber ábyrgð á því sem ég segi með myndum mínum.
Ég ber ábyrgð án orða.