Um listamanninn
Ég hef starfað sem listamaður frá tvítugsaldri. Ég vann í fyrstu með mörgum mismunandi listsköpunaraðferðum, svo sem olímálun, skúlptúr, ljósmyndun, kvikmyndun og grafík. Í dag vinn ég með eggolíutemperu, vatnsliti, innsetningar og tölvugrafík, þó er eggolíutemperan mitt aðalefni. Ég tel mig vera eina samtíma-listamanninn hérlendis, sem vinnur að staðaldri með eggolíutemperu, en mér gæti skjátlast. Ég hef notfært mér þessa tækni s.l. 9 ár og hef því góð tök á efninu og möguleikum þess. Má þess geta að ég hef einnig unnið með s.k. vax-temperu, búið til freskur og notfært mér fleiri fornar myndlista-aðferðir.