Um listamanninn
Ég vinn jöfnum höndum að málverki og bókverkagerð og hef verið með eigin vinnustofu síðan 2004. Um árabil vann ég einnig sem kennari við Myndlista - og handíðaskóla Íslands og síðar Listaháskólann. Að fást við myndlist er áskorun alla daga og að mínu viti mjög gefandi starf. Fjölbreytnin er takmarkalaus, sérstaklega nú á tímum, þegar allt er leyfilegt og tæknilegir möguleikar endalausir.
Málverkin mín eru ýmist hlutbundin eða óhlutbundin, frekar ,,spontant” og tilraunakennd. Takmarkið er að ná jafnvægi í litum og formi, sem mér finnst ærið.
Myndirnar hafa allajafna ekki nöfn, ég lít á þær eins og nokkurskonar ljóð án orða.
Mér finnst skemmtilegt ef mér tekst að tjá húmor eða ,, absúrdisma” í verkum mínum. Eitthvað sem dregur fram bros eða tilfinningu um að hlutirnir séu ekki alveg ,,réttir”, villa í kerfinu, en samt ,,harmonia” í útfærslu. Myndirnar þurfa ekki líkjast einhverju kunnuglegu, myndflöturinn er hvort sem er sjónræn blekking.
Hvað bókverkin varðar, gilda önnur lögmál. Þar er ég oftast að fást við orð og myndir, eitthvað vitrænt samhengi. Sú vinna finnst mér heillandi því þar þarf að huga að öllum þáttum bókarinnar: stærð, útliti, innihaldi, pappír, broti o.s.frv, og allt þarf að passa saman og hafa tilgang. Bókverkin mín eru af ólíkum toga og fæstar prentaðar í stóru upplagi.